fbpx

Sagan

Kristinn

Árið 1982 hafði Stórstúka Íslands tekist á hendur það verkefni að halda alþjóðamót I.O.G.T. sumarið 1984. Fjárhagsstaða Stórstúkunnar var fremur bágborin og ljóst að til þess að geta haldið svona mót með sóma þurfti mikla peninga.

Í ferð sinni til Noregs sumarið 1982 hafði Kristinn Vilhjálmsson heimsótt Arvid Johnsen hátemplar, sem einnig var forstjóri fyrir Ringen Forlag A/S í Oslo og fengið að láni hjá honum bingótölvu og eitt ljósaskilti ásamt bingóblöðum til þess að geta gert tilraun með hvort þessi nýja gerð af bingói gæti gengið hér á Íslandi, líkt og í Noregi.

Það þurfti að finna húsnæði sem væri hentugt og fengist fyrir lítið eða ekkert, því þetta átti bara að vera tilraun til að sjá hvort þessi hugmynd að bingói gæti gengið hér á landi.

Eftir nokkrar vangaveltur var ákveðið að fara á fund Halldórs veitingamanns í Glæsibæ sem á þeim tíma rak kaffiteríu á efri hæðinni í Glæsibæ undir nafninu Uxinn. Halldór tók málaleitaninni mjög vel og var fús til þess að leyfa þessa tilraun.

Því næst þurfti að auglýsa bingóið og var það gert með tveggja dálka auglýsingu í Morgunblaðinu sem hljóðaði svo:

Nýtt bingó- nýtt bingó. Nýtt á Íslandi, tölvustýrt bingó með ljósaskilti. Byrjar í dag kl. 17.00 í Kaffiteríunni í Glæsibæ. Spilaðar verða 40 umferðir, hæsti vinningur vöruúttekt kr. 3.000,- Þú getur komið og farið þegar þú vilt, spilað 5 – 10 eða fleiri umferðir að eigin ósk. Í dag eru fyrstu fimm umferðirnar ókeypis, STJÓRNIN.

Á þetta fyrsta bingó komu 17 gestir til þess að spila bingó og seldust 166 blöð á 20 kr. hvert eða samtals fyrir 3.320,- krónur, en vinningarnir voru samtals 8.260,- þannig að tapið á fyrsta kvöldinu var 4.940,- krónur, sem Kristinn Vilhjálmsson greiddi úr sínum eigin vasa.

Ekki þótti þetta lofa góðu, en að gefast upp var eitthvað sem Kristinn Vilhjálmsson vildi ekki, og því var ákveðið að reyna aftur en á öðrum tíma dags og stefnan sett á miðvikudaginn fyrsta desember, og eftir það varð ekki aftur snúið, ákveðið var að hafa bingó á miðvikudags- og sunnudagskvöldum og byrja kl. 20.00

Fyrstu 17 bingóin voru haldin uppi í kaffiteríunni í Glæsibæ, en miðvikudaginn 9. febrúar 1983 var bingóið flutt í kjallarann í Glæsibæ, þar sem dansleikirnir fóru fram. Um það hafði verið samið við Halldór, eigenda hússins að ekki yrði um neinar vínveitingar að ræða á þeim kvöldum sem bingóin væru. Það gekk fyrstu kvöldin en svo fór þjónninn að stelast til þess að selja gestunum vín og þrátt fyrir fögur loforð um að hætta vínveitingum var ekki staðið við þau. Því var ákveðið að reyna að finna annað og hentugra húsnæði fyrir bingóið og þann 22. júní 1983 var fyrsta bingóið haldið í Tónabæ.

Þegar sú hugmynd komst á kreik að félag eldri borgara hyggðist kaupa Tónabæ af Reykjavíkurborg vildi Kristinn Vilhjálmsson fara að huga að öðru húsnæði.

Heyrst hafði að húsnæðið þar sem Tónabíó hafði verið væri til sölu, Mönnum leist strax mjög vel á húsið og sáu hve mikið öryggi væri í því að eiga húsnæði heldur en að þurfa að leigja það.

Kristinn Vilhjálmsson talaði við Jón Adolf Guðjónsson þáverandi bankastjóra Búnaðarbankans og var hann tilbúinn til þess að lána fyrir kaupunum á húsnæði Tónabíós.

Þetta stóð allt eins og stafur á bók, gert var tilboð í húsnæðið upp á 25 milljónir og var það samþykkt. Skuldabréfið hljóðaði hins vegar upp á 28.700.000 því lántökugjaldi og þinglýsingarkostnaði var bætt við lánsupphæðina.

Þegar kaupin voru afstaðin hófst mikil undirbúningsvinna, því að ákveðið hafði verið að stofna sjálfseignarstofnun sem keypti húsnæðið og tæki við rekstri bingósins. Með dyggri aðstoð Jóns heitins Oddssonar lögfræðings og Óla Þ. Guðbjartssonar þáverandi dómsmálaráðherra tókst að gera þetta að sjálfseignarstofnun.

Fyrsta stjórn Veltubæjar var skipuð þeim Stefáni Jónatanssyni, sem hefur verið formaður hennar frá stofnun, Kristni Vilhjálmssyni, Mjöll Matthíasdóttur, Guðlaugi Fr. Sigmundssyni og Hilmari Jónssyni. Varamenn voru Ingibjörg Johnsen og Sveinn Kristjánsson, en í núverandi stjórn eru Stefán, Mjöll, Ingibjörg, Guðlaugur og Gunnar Þorláksson, sem jafnframt er formaður bindindissamtakanna I.O.G.T.

Þegar kaupin á Tónabíói voru frágengin, var hafist handa við breytingar á húsnæðinu, en eftirá kom í ljós að menn höfðum ekki gert sér raunverulega grein fyrir því hvað breytingarnar á húsnæðinu myndu kosta, gerð var áætlun í upphafi sem hljóðaði upp á tæpar 19 milljónir en kostnaðurinn við endurbæturnar mun hafa endað í rúmum 35 miljónum, með þeim tækjabúnaði sem þurfti að bæta við til þess að geta notað þetta húsnæði.

Þegar að því kom að flytja bingóið í sitt eigið húsnæði þótti rétt og skylt að halda opnunar- og vígsluhátíð og var það gert með glæsibrag fimmtudaginn 16. ágúst 1990. Kvöldið eftir var svo haldið fyrsta bingóið í nýja húsnæðinu.

Ég er ekki viss um að allir geri sér grein fyrir því að þegar Kristinn Vilhjálmsson hóf að undirbúa þetta bingó var hann orðinn rúmlega sjötugur að aldri, og þá þegar búinn að skila miklu og farsælu starfi fyrir Regluna.

Kristinn Vilhjálmsson var fæddur 13. mars 1912, og þrátt fyrir aldurinn stjórnaði hann og var framkvæmdastjóri Veltubæjar alveg þar til hann lést. Hann var á hverju bingókvöldi og baðst aldrei vægðar. Starfsævi hans endaði með því að hann var fluttur með sjúkrabíl frá Vinabæ á Borgarspítalann, og átti ekki afturkvæmt þaðan, en hann lést 4. apríl 1995 eftir stutta legu. 

Vinabær

 

Skipholt 33 | 105 Reykjavík
kt.: 560190-1749
S: 553-4054
bingo@bingo.is